Notenda öryggi og ábyrgð í meðferð Bitcoin

Hverju Bitcoin veski er hægt að læsa með lykilorði (encryption). Þetta  lokar í raun á allar millifærslur úr veskjunum nema viðkomandi viti lykilorðið. Ef einhver kemst yfir tölvu eða snjallsíma Bitcoin eiganda getur viðkomandi ekki millifært af reikningum vegna lykilorðsins.

Hægt er að taka afrit (backup) af hverju veski og geyma t.d. á USB drifi, senda afrit af veski í tölvupósti eða geyma það í vefhýsingu. Afrit af veski þýðir að ef tölvu eða síma er stolið, tapast eða bilar er hreinlega hægt að kaupa nýtt tæki og endurheimta Bitcoin veskið með afritinu með öllum Bitcoin einingunum ósnertum. NB. nauðsynlegt er að læsa veskjum með lykilorði áður en afrit er vistað.

Ef eigendur Bitcoin vantreysta stafrænu öryggi er líka hægt að taka Bitcoin af internetinu og prenta út á pappírsveski (paper wallet). Auðvelt er að geyma pappírsveski í bankahólfum eða ljósrita þau og geyma á öruggum stað.

Helstu hættur sem nýir notendur gætu lent í er að senda Bitcoin á vitlaust reikningsnúmer, þar sem ekki er hægt að snúa millifærslunni við. Það er ekki hægt að hringja í neinn til að tilkynna um mistök eða eitthvað svindl. Einstaklingar eru sjálfir fullkomlega ábyrgir fyrir öllum viðskiptum eins og ef um peningaseðla væri að ræða.

Til að koma í veg fyrir millifærslur á vitlausa reikninga búa flest veski yfir svokölluðum QR kóða, sem hægt er að taka mynd af með snjallsímum og við það kemur reikningsnúmer viðtakanda upp í veskið.

Fylgdu okkur á Facbook: